EN

How smart ranges are bound to replace today's resource-demanding driving ranges, revolutionizing golf's land-use and appeal to a new generation.

Föturnar tæmast

Framundan er bylting í landnotkun, útbreiðslustarfi og þjónustu við kylfinga er æfingasvæði fyrir lengri golfhögg víkja fyrir golfhermum.

eftir Edwin Roald

Flestir kylfingar kynntust glímu sinni við hvíta boltann fyrst á æfingasvæðinu, þar sem þjáningarbræður okkar og systur hafa þeytt ófáum boltunum út um víðan völl, oftast af gervigrasmottum, yfirbyggðum eða undir berum himni. Aðstaða af þessu tagi hefur löngum þótt sjálfsögð þjónusta við kylfinga og er af mörgum talin nær órjúfanlegur hluti golfvalla, sérstaklega fjölsóttum völlum í eða við þéttbýli.

 

Svo hefur ekki alltaf verið. Á þeim rúmlega sex hundruð árum sem fólk hefur stundað golfíþróttina hefur hún reglulega tekið miklum breytingum. Lögleiðing stálskaftsins á þriðja áratugnum var ein þeirra. Fram að tilkomu þess gátu kylfingar ekki æft lengri högg af sama ákafa og við þekkjum í dag, því hikkorísköftin sem þá voru við lýði þoldu ekki svo öra og mikla notkun. Þess vegna eru æfingasvæði fyrir lengri högg (e. driving range) sjaldséð á völlum sem lagðir voru fyrir þennan tíma.

Driving ranges did not become common place until after steel replaced hickory in golf club shafts.

Æfingasvæði fyrir lengri högg komu fram á sjónarsviðið þegar stál leysti hikkorí af hólmi í sköftum golfkylfa.

Við tilkomu stálskaftsins komu fyrst fram verksmiðjuframleidd golfsett þar sem samræmis gætti í eiginleikum skaftanna. Fram til þess tíma tíðkuðust ekki þær vélrænu eða kerfisbundnu æfingar á lengri höggum sem höfum vanist í dag, því hvert hikkorískaft hafði einstaka eiginleika. Sköft í sama golfsetti höfðu ekki aðeins mismikla sveigju, heldur höfðu þau mun meiri snúning eða vindu (e. torque) en nútímasköft.

 

Eftir að notkun stálskaftsins varð almenn fóru æfingasvæði þess vegna að sjást í vaxandi mæli. Nú er litið á þau sem staðalbúnað þegar golfvellir eru skipulagðir, en þau eru plássfrek og geta haft mikil áhrif á valkosti hvað varðar legu brauta, staðsetningu klúbbhúss o.s.frv.

 

Fórnarkostnaður þessara svæða er því talsverður þótt erfitt geti verið að henda reiður á honum eða mæla. Annar kostnaður við þau er þó vel mælanlegur, en er sjaldan settur fram í samhengi í ársreikningum golfklúbba. Þannig er hætt við vanmati á kostnaði við æfingasvæði. Á meðal kostnaðarliða eru tækjanotkun og vinnustundir við boltatýnslu og þvott, boltatap og skemmdir, endurnýjun á mottum og öðrum búnaði, afskriftir og viðhald týnsluvéla og boltasjálfsala, rafmagn, fjármagnskostnaður, sláttur og önnur umhirða eins og áburðargjöf og jafnvel vökvun. Sum svæði eru flóðlýst og/eða eru umlukin öryggisgirðingum vegna plássleysis. Hvort tveggja er kostnaðarsamt og getur valdið árekstrum við nágranna.

Many resource consuming outdoor driving ranges are bound to be replaced by attractive indoor warm-up and practice areas.

Golfhermar hjá Golfklúbbi Kópavogs og Garðabæjar.

Á undanförnum árum hafa golfhermar tekið stakkaskiptum. Notkun herma er að verða almenn og þeir eru orðnir að nær ómissandi kennslu- og þjálfunartæki. Eðlilegt er að búast við frekari framförum á þessu sviði og að hermarnir verði ekki aðeins betri, heldur að samkeyrsla þeirra við snjalltæki verði auðveldari. Einnig eru líkur á að þeir verði notendavænni og muni kosta minna.

 

Á sama hátt er líklegt að samkeppni um land og aðrar auðlindir verði sífellt meiri og að það birtist okkur í auknum kostnaði. Gott æfingasvæði þarf um fimm hektara lands. Ef eftirspurn er eftir því landi til annarra nota, s.s. íbúabyggðar eða atvinnustarfsemi, þá má selja það eða láta af hendi í skiptum fyrir fjármuni sem þá má verja til fjárfestinga í ákveðnum fjölda golfherma, sem koma má fyrir með því að loka æfingaskýlinu eða koma upp einskonar álmu í eða við klúbbhús. Þar má jafnvel bæta við ýmsum öðrum búnaði til upphitunar sem kylfingar geta nýtt til að koma blóðinu vel af stað og mýkja vöðvana. Landið sem þannig losnar má einnig nota til að bæta sjálfan golfvöllinn, koma upp öðrum minni velli eða leggja meiri áherslu en áður á góð æfingasvæði fyrir styttri högg.

Sums staðar eru æfingasvæði umlukin háum netgirðingum, sem geta verið kostnaðarsamar og haft neikvæð áhrif á ásýnd.

Golfhermar eru komnir til að vera. Með þeim geta kylfingar æft og/eða hitað upp í golfhermi gegn álíka háu gjaldi og þeir greiddu áður fyrir boltakörfu. Í stað þess að greiða fyrir fjölda bolta gætu þeir greitt fyrir fjölda mínútna. Sömu herma má eftir sem áður selja út í lengri tíma til þeirra sem vilja leika heilu golfhringina, eins og vinsælt er orðið utan leiktímabils. Einnig má hugsa sér að þeim kylfingum, sem aðeins vilja ná úr sér mesta hrollinum áður en slegið er af fyrsta teig, verði gert kleift að slá nokkra bolta í net við teigjaðarinn.

Fæstir æfingaboltar hegða sér eins og þeir boltar sem notaðir eru úti á velli.

Upphitun eða æfingar í golfhermi gætu þannig farið fram innandyra, í hlýlegu og notalegu umhverfi sem þannig nýtist allt árið um kring, á meðan mörg dæmigerð æfingasvæði verða af viðskiptum þegar allir boltar þeirra hverfa í snjó eða skoppa á klakabrynjunni og út fyrir girðingu. Kylfingar gætu þannig notað bestu fáanlegu bolta, af sömu gerð og þeir nota við leik úti á golfvelli, í stað þess að slá æfingabolta sem hafa ekki sömu eiginleika og fljúga styttra. Ólíkt því að draga ályktanir sem aðeins eru byggðar á tilfinningu kylfingsins fyrir eigin sveiflu og flugi lakari æfingabolta í vetrarhörkum, þá getur hermir gefið honum mun meiri og betri mælanlegar upplýsingar, t.d. um lengd höggs, hæð og stefnu, hliðar- og bakspuna boltans auk ferils kylfunnar. Með því að vinna út frá þessum tölum og halda utan um þær milli æfinga getur kylfingur sparað sér mikinn tíma, óvissu og óþarfa óánægju.

Driving range flood lighting is costly, resource demanding and often controversial for its negative visual impact.

Flóðlýsing kostar talsverða orku og fjármuni og er auk þess óvinsæl meðal íbúa.

Ef tillit er tekið til hækkandi verðs á landi og öðrum auðlindum, samhliða þeirri þróun sem orðið hefur í golfhermatækni, þá verða hefðbundin æfingasvæði æ augljósari tímaskekkja. Á hinn bóginn er hæpið að æfingasvæði hverfi með öllu. Líklegt er að áfram verði gerð krafa um að kylfingar í fremstu röð geti hitað upp, fylgst með flugi boltans og æft á lifandi grasi. Til dæmis fer Opna breska mótið oft fram á völlum sem lagðir voru áður en stálskaftið kom til sögunnar. Þar eru vel staðsett æfingasvæði sjaldgæf. Því er algengt að þar séu æfinga- og upphitunarsvæði sett upp tímabundið á hentugum, nálægum grassvæðum, t.d. á brautum nærliggjandi valla. Þeir golfklúbbar eða golfvallaeigendur sem sjá hag í að skipta æfingasvæðum sínum út fyrir golfherma gætu leyst stórmótahald sitt þannig.

 

Æfingasvæðin komu fram á sjónarsviðið eftir tilkomu stálskaptsins, sem leyft var fyrst í golfreglum bandaríska golfsambandsins árið 1924. Því er ekki nema eðlilegt að ætla að álíka straumhvörf geti orðið vegna tækninýjunga á okkar tímum. Golfhermar munu leysa flest æfingasvæði af hólmi áður en langt um líður.

Um höfundinn

Edwin Roald, golf architect, author of the SmartRange and Why18holes.com.
European Institute of Golf Course Architects, EIGCA, logo in png format Logo for Golf Environment Sustainability Associate

Full aðild - Stjórnarmaður

og formaður nefndar um sjálfbærni

Úttektaraðili fyrir sjálfbærnivottun Golf Environment Organization

Topp-25 umhverfisvænustu golfvallahönnuðir heims

Edwin Roald

Golfvallahönnuður og ráðgjafi með verkefni innanlands og utan, þ.á.m. í Bandaríkjunum og Rússlandi. Viðskiptavinir eru sveitarfélög, umhverfisverndarsamtök, golfsambönd, golfklúbbar og aðrir golfvallaeigendur.

 

Einn fjögurra norrænna golfvallahönnuða í efri aðildarflokki Félags evrópskra golfvallahönnuða. Situr í stjórn þess sem formaður nefndar um sjálfbæra golfvallagerð.

 

Viðurkenndur úttektaraðili GEO Certified-sjálfbærnivottunarinnar.

Fáðu frekari upplýsingar og tilkynningar

Hafðu samband til að fá:

Óháða ráðgjöf um kaup á búnaði

Sértilboð á búnaði frá helstu framleiðendum

Ráðgjöf um hönnun, staðsetningu og stærð

Kostnaðarmat og tekjuáætlanir

Umsýslukerfi

Ráðgjöf um nýja landnýtingu

Aðstoð við breytingar á velli ef með þarf

Samskipti við skipulagsyfirvöld

info@edwinroald.com

Sími: 693 0075

Skype: edwin_roald

© Eureka Golf 2017

Submitting Form...

The server encountered an error.

Form received